Hvað er þetta clicker?
Lilja Dögg Færseth Ólafsdóttir2024-08-18T18:09:08+00:00Clicker þjálfun varð vinsæl um og eftir síðustu aldamót, þegar Karen Pryor gaf út bókina Don’t Shoot the Dog!, þar sem hún ræðir þjálfunaraðferðir og notagildi clickers í nýjum þjálfunaraðferðum.
Sýnt hefur verið fram á að hegðun sem hefur í för með sér jákvæðar afleiðingar er líkleg til þess að vera endurtekin seinna meir, þar sem að sóst er eftir jákvæðu afleiðingunum. Sem dæmi má nefna að opna ísskápinn og koma auga á girnilegan mat sem síðan er borðaður. Ef, hins vegar, of langur tími líður á milli þess að hegðunin á sér stað og jákvæðu afleiðingarnar koma í ljós, er hegðunin mun ólíklegri til þess að endurtaka sig. En það er meðal annars ástæða þess að margir eiga erfitt með að halda sig við líkamsræktar- og matarprógröm. Ef að við færum í ræktina í eitt skipti og sæjum strax mun þegar við kæmum heim, myndum við vera mun líklegri til þess að halda áfram að mæta í ræktina, einfaldlega vegna þess að jákvæðu afleiðingarnar komu strax í ljós.

Þetta sama á við um dýr, en þar er tímaramminn mun skemmri. Sýnt hefur verið fram á að dýr eru mun fljótari að læra ef að jákvæðu afleiðingarnar koma í ljós á innan við 5 sekúndum eftir að hegðunin hefur verið framkvæmd. Ef lengri tími líður en það, á dýrið erfiðara með að gera tengingu á milli hegðunar og afleiðingar og þarf þar af leiðandi mun lengri tíma til að læra.
Fái dýrið hins vegar merki um leið og það framkvæmir hegðun að nú komi hin jákvæða afleiðing, dugar það til þess að dýrið geri tenginguna á milli hegðunar og afleiðingar mun fyrr.
Þetta var Pryor meðvituð um þegar hún ákvað að nota klikk hljóð sem þetta merki. Til þess þurfti hún eitthvað sem myndi gera eins hljóð í hvert skipti, sem hægt væri að sýna dýrum fram á að þýddi “nú kemur jákvæða afleiðingin af því sem þú varst að gera”; clickerinn.

Lítið tæki sem kallað er clicker, sem gefur frá sér „klikk“-hljóð.

Með því að nota clicker í þjálfun dýra er hægt að kenna þeim í raun hvað sem er, á jákvæðan, einfaldan og skemmtilegan hátt. Með því að gefa hundinum skýr skilaboð um hvers sé ætlast til af honum verður þjálfunin auðveldari og skemmtilegri fyrir alla aðila.
Mögulegt er að nota önnur merki en klikk-hljóð í þessari þjálfun. Margir nota rödd sína og hafa ákveðið orð sem merki fyrir rétta hegðun. Á ensku er orðið “yes” gjarnan notað, en velja má hvaða orð sem er. Að nota röddina hefur bæði kosti og galla, en kostir eru meðal annars að auðveldara er að segja merkiorðið sitt ef maður er ekki tilbúinn með clickerinn og maður er því ólíklegri til að missa af hegðun sem maður vill merkja ef clickerinn er ekki við hönd. Ókostir eru hins vegar þeir að raddblær okkar og styrkur getur breyst eftir aðstæðum sem veldur því að hljóðið er ekki alltaf eins. Sömuleiðis notum við rödd okkar í miklum mæli dagsdaglega, sem veldur því að merkiorðið okkar getur týnst innan um hin orðin. Því er mikilvægt að segja ekkert, fyrir utan merkiorðið, í þjálfun þegar raddmerki er notað.