Hundaþjálfunaraðferðir, gamlar og nýjar
Lilja Dögg Færseth Ólafsdóttir2024-08-20T16:11:35+00:00Eitt af því sem fylgir því að sjá um hund, er að þjálfa hann. Mismunandi þjálfunaraðferðir hafa verið á sveimi í langan tíma, þar á meðal á Íslandi, en þær skiptast aðallega í tvennt; gamlar og nýjar. Gamlar aðferðir eru gjarnan kallaðar Alpha aðferðir eða refsiaðferðir, en nýjar gjarnan kallaðar jákvæð styrking eða þvingunarlausar (e. force free) aðferðir.
Gamlar þjálfunaraðferðir hafa lagt áherslu á að til að hundur hlýði verði að sýna honum hver ráði og að hann megi ekki komast upp með að stjórna, annars muni hann taka yfir heimilið og ráða yfir mannfólkinu sínu. Í þessum þjálfunaraðferðum er líkamlegum styrk og refsingum oft beitt til að hafa hundinn undir, svo hann sjái að mannfólk hans sé sterkara en hann, að mannfólkið sé svokallað Alpha. Þessar þjálfunaraðferðir voru byggðar á svokallaðari Alpha-kenningu, sem nú hefur verið afsönnuð. Alpha-kenningin var byggð á bók Dr. David Mech frá árinu 1970, þar sem hann framkvæmdi rannsókn á úlfum árið 1968. Þar voru úlfar settir saman og fylgst með hegðun þeirra. Lenti úlfunum oft saman og sýndu þeir þá hegðun sem túlkuð var sem tilraun til að komast ofar í goggunarröðina. Sá úlfur sem var efstur í goggunarröðinni var titlaður Alpha úlfur. Þetta var síðar yfirfært yfir á hunda og hegðunarvandamál þeirra túlkuð sem tilraun til að komast ofar í goggunarröð heimilisins. Þar af leiðandi héldu forráðamenn hundanna að þeir þyrftu að sýna hundinum hver réði með því að nota líkamlegan styrk, líkt og úlfarnir í rannsókninni gerðu.
Síðan þessi rannsókn var framkvæmd hafa fleiri rannsóknir verið gerðar á úlfum, meðal annars af Dr. Mech sjálfum, sem afsannað hafa kenninguna og sýnt fram á annars konar uppbyggingu úlfahjarða. Mech hefur sjálfur sagt að hugmyndin um Alpha úlfinn sé úrelt og við vitum nú að úlfahjarðir eru fjölskyldur þar sem “Alpha” úlfarnir eru foreldrarnir sem setja yrðlingum sínum mörk.
Hér má hlusta á Dr. Mech sjálfan tala um hugtakið Alpha wolf:
Þó eru gömlu þjálfunaraðferðirnar enn við lýði í dag og margir sem trúa því enn að þeir þurfi að sýna hundi sínum hver sé Alpha og ráði í hjörðinni. Þar af leiðandi notast fólk sem fylgir þeim aðferðum við hengingar- og rafmagnsólar, þau kippa í tauminn þegar hundur hlýðir ekki, rífa hundinn niður og halda honum þegar hann gerir eitthvað sem þeim ekki líkar (e. Alpha roll), og þar fram eftir götum. Sýnt hefur verið fram á að þessar aðferðir geti haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér, bæði andlegar og líkamlegar. En með því að ítrekað valda hundi sársauka eða hræðslu mun samband mannfólks og hunds verða lítið og ótraust, og getur aukið kvíða og streitu hjá hundum, sem kemur oft fram sem árásargirni eða önnur óæskileg hegðun.
Því má heldur ekki gleyma, að hundur er ekki úlfur. Þó svo að hundar séu náskyldir úlfum, þá hafa þeir þróast í sitthvora áttina í þúsundir ára. Hundar hafa verið ræktaðir í langan tíma í mismunandi tegundir fyrir mismunandi tilgang, ekki síst vegna skapgerðar. Í gegnum árin hafa hundar meðal annars verið ræktaðir þess að vilja vera með fólkinu sínu, hjálpa þeim, hlýða og geðjast fólki, ásamt því að sinna mismunandi verkefnum í þjónustu við fólkið sitt.

Úlfur og hundur
Mynd eftir Nick Jans
Í takt við aukna þekkingu hafa hundaþjálfunaraðferðir tekið stakkaskiptum. Nýjar þjálfunaraðferðir notast við vísindalega sannaðar kennsluaðferðir, sérstaklega virka og klassíska skilyrðingu, undir annarri kenningu sem kallast námskenningin (e. learning theory) sem á enn við í dag. Sú kenning á rætur sínar að rekja í sálfræði, en þessar sömu aðferðir eru notaðar við kennslu og sálfræðimeðferð fyrir mannfólk. Með notkun nýju þjálfunaraðferðanna er lögð áhersla á hvernig hundar læra og þeim kennt til hvers er ætlast af þeim og hvernig skal framkvæma það.
Hundaþjálfarar sem nota nýju þjálfunaraðferðirnar notast við jákvæða styrkingu sem komið er inn á í námskenningunni. Hún felst í því að verðlauna hundinn fyrir það sem vel er gert, eða það sem mannfólkið lítur á sem “rétta hegðun”. Hér er yfirleitt notast við matarbita, en einnig annars konar verðlaun, svo sem dót eða hrós. Það er þó ekki þar með sagt að hundar þurfi matarbita alla ævi í hvert skipti sem þeir framkvæma þá hegðun, þar sem einnig skal fjara út matarbita og tengja við annars konar verðlaun, líkt og hrós.
Mýta
Nýju þjálfunaraðferðirnar eru bara að múta hundinum með nammi.
Sannleikur
Að gefa hundinum nammibita fyrir vel unnið verk er verðlaun, en ekki mútur.
Með nammibitanum er hundinum þakkað fyrir og honum gefið til kynna að þessi hegðun borgi sig. Samkvæmt námskenningunni er hegðun sem hefur jákvæðar afleiðingar líklegri til að vera endurtekin. Með þessu er hegðunin einnig tengd við jákvæðar tilfinningar í frumstæðum heilastöðvum hundsins.
Með nýju þjálfunaraðferðunum er einnig komið til móts við þarfir hundsins, með því að taka tillit til grunnþarfa hans, bæði líkamlegra og félagslegra. En vandamálahegðun kemur oft fram ef þessum þörfum hefur ekki verið mætt. Sem dæmi má nefna hvolp sem bítur og nartar í heimilisfólk sitt, en það getur verið birtingarmynd þreytu. Nýju aðferðirnar geta einnig bætt sjálfstraust og sjálfsöryggi hunds, þar sem við erum ítrekað hrósa honum og segja honum hvað hann hefur gert rétt. Þetta getur einnig haft þau áhrif að samband mannfólks og hunds styrkist og hundinum finnst skemmtilegt að vinna með fólkinu sínu.
Hægt er að nota nýju þjálfunaraðferðirnar til að kenna hundum hvað sem er, þar með talið til að eiga við erfiða hegðun og “vandamálahegðun”. Ný þekking og rannsóknir hafa sýnt fram á að vandamálahegðun er ekki tilraun til klífa hærra í goggunarröðinni, heldur er eitthvert undirliggjandi vandamál til staðar og hegðunin því einungis birtingarmynd þess. Ef næg þekking á nýjum þjálfunaraðferðum er til staðar eru gömlu aðferðirnar óþarfar.
Hundaleikni notast einungis við nýjar þjálfunaraðferðir sem hafa verið vísindalega sannaðar og byggja á sálfræði og atferlisfræði.