Að velja hundaþjálfara
Lilja Dögg Færseth Ólafsdóttir2024-08-20T16:03:31+00:00Að velja sér hundaþjálfara eða hundaskóla getur verið flókið, sérstaklega þegar framboð er mikið og eftirlit lítið sem ekkert.
Raunin er sú, að á Íslandi er starfsheitið hundaþjálfari ekki lögbundið, og getur því hver sem er kallað sig slíkan, óháð menntun og reynslu. Þar af leiðandi er heldur ekkert eftirlit með starfsemi hundaþjálfara á Íslandi, eins og í mörgum öðrum löndum. Þetta gerir hundaeigendum /-forráðamönnum mjög erfitt fyrir að velja sér hundaþjálfara og -skóla.
Tilgangur þessarar greinar er að reyna að auðvelda fólki valið, svo það geti tekið upplýsta ákvörðun um hvernig það vill þjálfa hundinn sinn og þar af leiðandi hvert það á að leita eftir slíkri þjónustu.
Reynt verður eftir bestu getu að gæta hlutlægni, þrátt fyrir hlutdrægni höfundar í átt að nýjum þjálfunaraðferðum.
Fyrsta spurningin sem við viljum spyrja okkur er; hvernig þjálfunaraðferð vil ég nota?
Vil ég hundaþjálfara sem kennir mér að nota líkamlegan styrk og refsingar til að sýna hundinum mínum hvað ég vill ekki að hann geri? Og nota það til að fá fram hlýðni og undirgefni? Vil ég hundaþjálfara sem kennir mér að fá hundinn minn til samvinnu við mig með því að nota jákvæða styrkingu? Og þannig sýna honum hvað það er sem ég vill fá frá honum / til hvers er ætlast af honum?
Endilega lesið nánar um þjálfunaraðferðir hér svo þið getið tekið upplýsta ákvörðun um val á þjálfunaraðferðum.
Hér eru nokkrar spurningar sem hundaforráðamenn eru hvattir til að spyrja tilvonandi hundaþjálfara sinn: 1. Hvernig eru þjálfunaraðferðir þínar / út á hvað ganga þær?
2. Eftir hvaða kenningu vinnur þú?
3. Hvað gerist ef að hundurinn minn gerir eitthvað “rétt”? 4. Hvað gerist ef að hundurinn minn gerir eitthvað “rangt”?
Ef að svarið við spurningu 3 er að hann fái verðlaun fyrir það og svarið við spurningu 4 er “ekkert”, eða að honum verði sýnt aftur hvað hann á að gera, er líklegast að þjálfarinn vinni með nýrri þjálfunaraðferðir sem sýna hundinum til hvers er ætlast af honum, eða nýjar þjálfunaraðferðir.

Ef að svarið við spurningu 3 er ekkert” og svarið við spurningu 4 er að honum verði refsað, er það til merkis um að þjálfarinn vinni með aðferðir sem ganga út á að sýna hundinum hver ráði og að fá hann til hlýðni með undirgefni, svokallaðar “Alpha” aðferðir.
Refsing er allt sem að hundinum gæti þótt óþægilegt og myndi vilja forðast. Refsing getur verið allt frá skömmum að líkamlegum höggum, eins og að slá hundinn eða kippa í hálsólina hans með taumnum.
Dæmi um refsingar (athugið að listinn er ekki tæmandi):
-að segja hátt „NEI!“
-að klappa hátt fyrir framan andlit hunds
-önnur hvell eða óþæginleg hljóð (eins og sprey [tsst] eða ískur).
-titringur / rafmagn í ól
-kippur á hálsól
-að spreyja vatni á hund (ef honum finnst það óþægilegt)
-að rífa hundinn niður (alpha roll)
Ef hins vegar svarið við spurningu 3 er að hann fái verðlaun og svarið við spurningu 4 er að honum verði refsað er líklegt að þjálfarinn skilgreini sig sem “balanced” þjálfara. Þá er átt við þjálfara sem sýna hundi til hvers er ætlast af honum, en hika ekki við að beita refsingum, sýni hundurinn hegðun sem þjálfarinn vill ekki sjá.
Hér má sjá samanburð á milli þjálfunaraðferða
Gamlar aðferðir:
-Þjálfunaraðferðir ganga út á að láta hundinn hlýða og sýna honum hver ræður
-Vinnur eftir Alpha kenningunni
-Ekkert gerist ef hundurinn sýnir rétta hegðun
-Eitthvað neikvætt gerist ef hundurinn sýnir ranga hegðun
Nýjar aðferðir:
-Þjálfunaraðferðir ganga út á að sýna hundinum hvað hann á að gera og hvernig
-Vinnur eftir námskenningunni
-Eitthvað jákvætt gerist ef hundurinn sýnir rétta hegðun
-Ekkert gerist ef hundurinn sýnir ranga hegðun
„Balanced“ aðferðir:
-Þjálfunaraðferðir ganga út á að láta hundinn hlýða og sýna honum hver ræður, en einnig hvað borgar sig
-Vinnur mögulega eftir báðum kenningum
-Eitthvað jákvætt gerist ef hundurinn sýnir rétta hegðun
-Eitthvað neikvætt gerist ef hundurinn sýnir ranga hegðun
Þegar forráðamaður hefur ákveðið hvers konar þjálfunaraðferðir hann vill nota, hafa þegar þjálfarar / skólar sem ekki samsvara þjálfunarhugmyndafræði forráðamannsins verið útilokaðir.
Næst skal spyrja sig hvers vegna aðstoð hundaþjálfara er óskað. Er óskað eftir aðstoð með ákveðið vandamál, svo sem gelt í göngutúrum eða nart í fætur heimilisfólks?
Eða er verið að leita eftir ákveðnum námskeiðum, svo sem grunnnámskeiði, hlýðninámskeiði, innkallsnámskeiði eða taumgöngunámskeiði? Ekki allir þjálfarar / skólar bjóða upp á öll námskeið og sumir þjálfarar hafa sérhæft sig í ákveðnum vandamálum, eins og aðskilnaðarkvíða eða hræðslu. En líkt og með aðrar fagstéttir getur verið kostur að leita ráða hjá sérhæfðum fagaðila.
Þegar þessum tveimur spurningum hefur verið svarað standa líklega nokkrir skólar eða þjálfarar eftir. Flestir, ef ekki allir, ættu þá að samræmast gildum hundaforráðamannsins og vera hæfir til að kenna þá færni sem óskað er eftir.
Forráðamenn hvattir til að fylgjast með aðferðum þjálfarans; skoða hvernig hann kemur fram við hundinn og hvers konar útbúnað hann notar við þjálfun, því það hefur komið fyrir að þjálfarar segist vinna eftir ákveðnum aðferðum, sem síðar stenst svo ekki skoðun.
Útbúnaður og þjálfunartæki geta sagt mikið til um þjálfunaraðferðir viðkomandi þjálfara. Ef að þjálfari notar clicker og matarbita / önnur verðlaun er það til marks um að hann noti jákvæða styrkingu / nýju aðferðirnar. Ef þjálfari notar skammir, hálsól sem þrengir að hálsi hunsins eða annað sem hundinum gæti þótt óþægilegt eða ógnvekjandi, er það til marks um að hann noti refsingu, eða gömlu aðferðirnar.
Sömuleiðis eru forráðamenn hvattir til að fylgjast með merkjamáli hundsins síns í þjálfuninni. Hvað er hundurinn að segja okkur? Líður honum vel í þjálfuninni, eða er hann óöruggur?
Ef hundurinn segir okkur að honum líði ekki vel eru það skilaboð til okkar um að við þurfum að breyta um þjálfunaðferð, þar sem við viljum jú öll að hundunum okkar líði sem best.

Síðast en ekki síst, skal ávallt treysta eigin innsæi. Ef að þér, sem forráðamanni, líður ekki vel með að framkvæma það sem þjálfarinn segir þér að gera, ekki gera það. Ræddu frekar við þjálfarann um hvernig þér líður og hvað þér finnst um aðferðirnar.
Faglegur þjálfari ætti að geta rætt aðferðir sínar hlutlaust og útfært þjálfunina eftir ykkar teymi, það er að segja þér og hundinum. Ef að hegðun þjálfarans í garð þín eða hundsins þíns fer einhvern tímann fyrir brjóstið á þér eða lætur þér líða illa, ekki hika við að stoppa hann af og hætta þjálfun. Ræddu það við þjálfarann. Að öðru leiti skaltu leyfa þér að leita eftir aðstoð annars fagaðila, því það mikilvægasta sem við gerum fyrir hundana okkar er að ljá þeim rödd okkar, vera til staðar fyrir þau og vernda þau.