Beisli og hálsólar
Lilja Dögg Færseth Ólafsdóttir2024-09-07T13:53:56+00:00Margir velta fyrir sér hvort betra sé að hafa hundinn sinn í hálsól eða beisli.
Almennt er mælt með því að hundar séu í beislum í göngum og á öðrum stöðum þar sem þeir eru í taum.
Ástæða þess er sú að margt getur komið upp þegar hundar eru festir í taum sem getur valdið togi eða kippi á tauminn, hvort heldur hjá hundinum sjálfum eða manneskjunni sem heldur í tauminn. Manneskjan gæti hrasað eða dottið, taumurinn flækst í eitthverju eða að hundurinn sjálfur togar í tauminn. Það gæti til að mynda verið vegna spennu, ef þeir vilja nálgast eitthvað eða skoða nánar, eða af ótta, sé eitthvað sem nálgast þá sem þeir vilja forðast. Sé hundur í hálsól á þessum tímapunktum mun hálsinn taka við því togi eða þeim kipp sem á tauminn kemur. Sé hundur að toga í taum vegna hræðslu eða annarrar geðshræringar er ólíklegt að hann muni láta af toginu, þar sem hann áttar sig ekki á þeim óþægindum sem togið veldur honum, sökum geðshræringarinnar. Þá er sama líkamlega kerfi í gangi hjá þeim, eins og hjá mannfólki, þegar við til dæmis finnum ekki fyrir sársauka í óttavekjandi aðstæðum.
Ástæða þess að mælt er með að forðast tog og kippi á háls hunda er sú að í hálsinum er mikið af mikilvægum og viðkvæmum líffærum; svo sem hryggur og mæna, vélinda, barki, slagæðar, skjaldkirtill og fleira (sjá mynd 1).

Mynd 1. Líffæri í hálsi hunda sem geta orðið fyrir skaða við tog eða kippi
Mikið tog eða kippir á hálsinn getur því verið skaðlegt fyrir þessi líffæri og haft neikvæð áhrif á starfsemi þeirra. Þrenging á barka og æðum upp í höfuð getur heft súrefni til heilans, sem veldur því að hundurinn á erfiðara með að hugsa rökrétt þar sem heilinn fær ekki það súrefni sem hann þarf til að starfa eðlilega. Þar af leiðandi mun hundurinn taka verri ákvarðanir en annars og lærir verr í þessum aðstæðum. Í öfgakenndum dæmum getur liðið yfir hundinn.
Annað mikilvægt líffæri sem staðsett er í hálsinum er skjaldkirtillinn. Hann er staðsettur fyrir miðjum hálsi, sitthvoru megin við barkann. Hlutverk skjaldkirtilsins er að seyta hormónum um líkamann, þar á meðal hormónum sem sjá um þyngdarstjórnun og streituhormóninu kortisóli. Ítrekaðar þrengingar eða högg á þennan kirtil geta komið ójafnvægi á skjaldkirtil hundsins, sem getur aftur haft neikvæð áhrif á þyngdarstjórn hundsins, sem og magn streituhormóns sem streymir út í líkamann.
Komist ójafnvægi á streituhormón getum við séð aukningu í streitutengdri hegðun, svo sem gelti, hömpi, væli, og minna þoli fyrir áreiti, eða það sem margir myndu túlka sem árásargirni.
Af þessum ástæðum er mælt með því að hafa hund í beisli, þar sem það verndar hálsinn og þau líffæri sem í honum eru.
Mýta
Hundurinn mun læra að toga ekki í tauminn, sé hann í hálsól þar sem það veldur honum óþægindum.
Sannleikur
Hundurinn mun toga jafnmikið í tauminn, hvort sem hann er í hálsól eða beisli. Það er alls óvíst að óþægindi munu hafa áhrif á tog, sérstaklega ef að hundurinn er í tilfinningalegu uppnámi.
Hins vegar er mikilvægt að velja beisli sem passar vel á hundinn og heftir þar af leiðandi enga líkamsstarfssemi; hvorki blóðflæði, öndun, né hreyfigetu. Slík beisli eru gjarnan kölluð Y-beisli, þar sem þau mynda stafinn Y ef horft er framan á hundinn, eða á bak hans ofan frá (sjá mynd 2).

Mynd 2.
Y-beisli. Takið eftir hvernig beislið myndar stafinn Y þegar horft er framan á bringu hundsins.
Til er ógrynni af mismunandi beislum frá mismunandi framleiðendum, og eru þau mörg misgóð. Til þess að beisli liggi rétt á hundi og uppfylli þar af leiðandi ofangreindar kröfur, skal það liggja yfir bringu og viðbein, ofan á hrygg og yfir rifbein (sjá mynd 3).

Mynd 3. Hér sést beinauppbygging hundsins og hvernig beisli skal liggja á líkamanum
Höfundur: Hundasamfélagið og Kolbrún Arna Sigurðardóttir. Fengin af vef Hundasamfélagsins, með útskýringum frá Kolbrúnu dýrahjúkrunarfræðingi, hundasjúkraþjálfara og innflytjanda NonStop.
Nr. 1. Gæta skal að að beislið liggi yfir bringubeinið og upp fyrir axlir, en fari ekki yfir herðablöð eða axlir og nái ekki upp á háls heldur.
Nr. 2. Smellur beislisins skulu vera staðsettar þannig að þær séu í jafnvægi og valdi hundinum ekki óþægindum.
Nr. 3. Gæta skal að beislið fari ekki of nálægt handarkrika, eða fótarkrika í þessu tilfelli, svo það skerist ekki þar í og valdi óþægindum.
Nr. 4. Beislið skal ekki heldur ná út á mitti, þar sem það gæti skorist í mjúkvef. Heldur skal það liggja yfir mið rifbein (líkt og nr. 2 sýnir, u.þ.b. mitt á milli handarkrika og enda rifbeinanna, sjá tölur 3 og 4).
Nr. 5. Krækja fyrir taum skal vera staðsett fyrir aftan herðablöð svo rétt álag myndist við tog, og verndi þar með hrygg hundsins.
Til eru einnig beisli sem liggja þvert yfir bringu hundsins, þó ekki sé mælt með þeim, þar sem slík beisli hefta hreyfigetu framfóta hundsins. Þar af leiðandi geta þau leitt til vandamála síðar meir, þar sem þau hafa neikvæð áhrif á líkamsbeitingu hans.
Í myndbandinu hér til vinstri má sjá mismunandi beisli og hvernig þau liggja á líkama hundsins.
Höfundur: Petforta
Mýta
Beisli kenna hundum að toga.
Sannleikur
Beisli kenna hundum ekki að toga, frekar en að sólskin veldur bátaslysum. Hér er um að ræða misskilning á milli fylgni og orsakar.
Beisli hins vegar vernda líkama hundsins gegn mögulegum neikvæðum áhrifum togs og til eru sérstök beisli til að gera hundum kleift að toga í íþróttum (eins og t.d. Canicross, Bikejöring og Skijöring), þau eru kölluð dráttarbeisli.
Tveir góðir beislaframleiðendur sem Hundaleikni mælir með eru Dog Copenhagen og NonStop Dog Wear.
Báðir þessir framleiðendur nota Y hannanir á beislin sín sem tryggir sem mest þægindi og sem besta hreyfigetu fyrir hundinn.
Dog Copenhagen beislin fást hjá Garpi verslun og Hundaleikni. Öll beisli Dog Copenhagen eru stillanleg hjá mitti og öxlum, til að tryggja að þau passi sem best á hundinn.
NonStop beislin fást hjá Búvörum, Non-stop stöðinni og Dýraspítalanum í Garðabæ. Þar eru til Rock og Ramble beisli sem eru stillanleg bæði hjá mitti og hjá öxlum,
Beislamátun og ráðgjöf fylgir frítt með öllum versluðum beislum hjá Hundaleikni.